By Stefán Jóhannsson

11.11.2019 15:22

By Stefán Jóhannsson

Við hjá Smartmedia erum stolt af því að kynna nýtt samstarf okkar við Póstinn en það felst í því að við höfum undanfarnar vikur smíðað lausn sem tengir vefþjónustu Póstsins við netverslunarkerfi Smartmedia. Þessi tenging einfaldar viðskiptavinum Smartmedia verulega ferlið við að koma vörum áfram til sinna viðskiptavina og minnkar tímann sem fer í utanumhald um póstsendingar.

Með tilkomu þessarar þjónustu geta fyrirtæki sem nýta sér netverslunarkerfi Smartmedia tengst beint við skráningarkerfi Póstsins sem gerir það að verkum að allar upplýsingar skila sér strax inn í kerfi Póstsins. Þannig auðveldar þetta netverslunum að halda utan um allar sendingar sem þær senda viðskiptavinum sínum á einum stað.

Einnig með þessari þjónustu opnast á þann möguleikann að bjóða viðskiptavinum að sækja sendinguna sína í póstbox sem staðsett eru víðsvegar á Höfuðborgarsvæðinu ásamt því að geta fylgst betur með stöðu sendingar frá því að pöntun er gerð þar til hann fær vöruna í hendurnar.

„Við erum mjög ánægð með að fara í þetta samstarf með Póstinum. Með því að bæta við þessum valmöguleika fyrir okkar viðskiptavini erum við að auðvelda þeim mjög sendingarhlutann í ferlinu. Við hjá Smartmedia erum stórir á íslenskum netverslunarmarkaði og viljum bjóða uppá framúrskarandi þjónustu við okkar viðskiptavini og þetta samstarf okkar við Póstinn ýtir undir það.“
segir Hjörvar Hermannsson, framkvæmdastjóri Smartmedia.

„Það er mjög gaman að fá að taka þátt í þessu verkefni með Smartmedia. Netverslunarkerfið þeirra er gríðarlega einfalt og þægilegt í notkun en þessi viðbót gerir það að verkum að viðskiptavinir Smartmedia geta nú með einföldum hætti skráð sendingar inn í kerfi Póstsins á einum stað.“
segir Elvar Bjarki Helgason, forstöðumaður söludeildar Póstsins.

Núverandi viðskiptavinir Smartmedia sem vilja nýta sér þessa þjónustu geta haft samband við okkur og fengið ítarlegri upplýsingar um innleiðingu á þjónustunni. Best er að senda tölvupóst á stefan@smartmedia.is

Fleiri fréttir