By Björt Baldvins

02.07.2018 14:33

By Björt Baldvins

Könnun Gallup á vefverslun á Íslandi

Í upphafi árs gerði Gallup könnun á vefverslun Íslendinga. Markmið könnunarinnar var að svara spurningum eins og hverjir eru að versla á netinu og hvers vegna? Hvaða vörur er fólk helst að versla og hvernig eru framtíðarhorfur íslenskrar vefverslunar?

Okkur hjá Smartmedia þótti þetta flott og áhugaverð könnun og viljum gjarnan deila með ykkur niðurstöðum hennar. Við höfum tröllatrú á íslenskri netverslun og vitum að tækifærin leynast víða.

Helstu niðurstöður könnunarinnar eru að fólk á öllum aldri verslar á netinu og 65% fólks telja að það muni auka vefverslun sína í framtíðinni. Íslendingar vilja greinilega versla í auknum mæli á netinu og þar liggja tækifærin fyrir íslenska söluaðila.

79% Íslendinga versluðu á netinu síðustu 12 mánuði

slendingar eru á meðal þeirra þjóða þar sem hvað flestir versla á netinu eða 79%. Samkvæmt Eurostat er sambærilegt hlutfall fyrir Bretland 83%, Danmörku 82%, Noreg 78%, Lúxemborg 78%, Svíþjóð 76% og Holland og Þýskaland 74%. 65% svarenda telja að netverslun þeirra muni aukast og 31% til viðbótar að hún muni haldast óbreytt.

Fólk á öllum aldri verslar á netinu

Könnunin sýnir glögglega að vefverslun einskorðast ekki við ungt fólk, því fólk á öllum aldri verslar á netinu. Nær allir á aldrinum 25-44 ára sögðust hafa verslað á netinu sl. 12 mánuði og 52% fólks 65 ára og eldri sögðust hafa gert það. Við nánari skoðun kom í ljós að færri ungir versla við íslenska aðila.

Íslendingar leita í meira mæli til erlendra söluaðila

Í könnun Gallup kemur fram að Íslendingar leita í meira mæli til erlendra söluaðila en neytendur í nágrannalöndum okkar. Af þeim sem höfðu verslað á netinu höfðu 76% verslað við íslenska söluaðila og 87% höfðu verslað við erlenda söluaðila. Ýmsar rannsóknir sýna að neytendur í nágrannalöndum okkar versla í meira mæli við innlenda söluaðila og í minna mæli við erlenda heldur en þeir íslensku eru að gera. Einnig kemur fram að þrír af hverjum fjórum hafa leitað sér upplýsinga um vöru á netinu en ákveðið að kaupa hana í verslun á staðnum.

Heiður Hrund Jónsdóttir, sérfræðingur hjá Gallup kynnti niðurstöður könnunarinnar á ráðstefnu Já og Valitor um vefverslun á dögunum. Niðurstöðurnar í heild sinni má nálgast hér.

 

Fleiri fréttir